Verðlaunaafhending

Verðlaunaafhending

Vegna hæst dæmdu litföróttu hryssunnar fyrir kynbótadómi sumarið 2020.
Afhendingin fór fram í Víðdal í góðu veðri sunnudaginn 22.11.2020.

Til þessara verðlauna var stofnað árið 2013.
Verðlaunagripinn gaf fyrirtæðkið JötunVélar á Selfossi.
Verðlaunaveitingin hverju sinni er á ábyrgð Hrossaræktarsamtaka Suðurlands.

Áður hafa hlotið þennan bikar hryssurnar:
Gleði frá Lækjardal bleikálótt litförótt hryssa fædd 2007
Maja frá Búðardal jarplitförótt hryssa fædd 2009 – tvisvar sinnum
Úlfhildur frá Skíðkakka III jarplitförótt hryssa fædd 2011
Einstök frá Skíðbakka III móvindótt litförótt hryssa fædd 2013 – tvisvar sinnum
Og núna sumarið 2020 vann hryssan Litbrá frá Langhúsum til bikarsins.

Alls komu 4 hryssur litföróttar til dóms síðastliðið sumar.
Auk Litbrár var sýnd hryssan Fríður frá Skíðbakka III, brúnlitförótt – sýnd upp á 7,79 í aðaleinkunn. Hún er systir þeirra Úlfheiðar og Einstakrar sem báðar hafa hlotið bikarinn og eru undar Spes frá Skíðbakka III. Fríður er undan konsert frá Korpu.
Þá komu tvær systur til sköpulagsdóms eingöngu, þær Mæra frá Bár, móálótt stjörnótt litförótt undan Spröku frá Bár og Svala-Svala frá Dalsbúi, rauðblesótt glófext litförótt undan Salvöru frá Naustum III. Þær eru báðar undan Mola frá Hömluholti, bleikblesóttum litföróttum.

En snúum okkur að Litbrá.
Litbrá er brúnlitförótt hryssa fædd árið 2013.
Ræktandi hennar og eigandi er Arnþrúður Heimisdóttir í Langhúsum í Fljótum.
Sýnandi og þjálfari Litbrár var Þórhallur Rúnar Þorvaldsson á Ysta-Gerði.

Litbrá er undan Sjóði frá Kirkjubæ, brúnum Sæssyni fæddum 2007 og undan Þyrnirósu frá Kirkjubæ Hróðsdóttur. Það er því ljóst að Litbrá hefur ekki litföróttar erfðir úr föðurættinni.
Svo er Litbrá undan Hersingu frá Langhúsum, brúnlitföróttri skjóttri hryssu fæddri 2005.
Móðir Hersingar er Harpa frá Neðri-Hrepp, sem var rauðskjótt hryssa, Hervarsdóttir og af hinu vel kunna Kleifakyni í móðurætt.
Faðir Hersingar er Heimir frá Vatnsleysu, brúnlitföróttur Glampasonur f. 1999.

Hér kemur smáútúrdúr. Hersing er undan skjóttri hryssu og litföróttum fola. Hún á átta afkvæmi í WF. Sex þeirra eru skjótt og tvö litförótt. Það er nefnilega þannig að genin fyrir litföróttu og skjóttu hafa afar sterka tilhneigingu til þess að hanga þannig saman á litningi að litförótt skjótt hross gefur nánast alltaf annað hvort litförótt eða skjótt afkvæmi, en nær aldrei einlitt og ekki litförótt skjótt nema að það sé með annað hvort litföróttum eða skjóttum mótaðila. Útúrdúr lýkur hér.

Litbrá fær sem sagt litförótta litmynstrið í gegnum móður sína frá afa sínum Heimi Glampasyni. Móðir Heimis var Heiður frá Vatnsleysu f. 1987, en hún var brúnlitförótt, undan brúnlitföróttum fola, Erpi frá Erpsstöðum.
Erpur var af hinu gamla liförótta gæðingakyni í Dölunum, á Þorbergsstöðum, Lækjarskógi og víðar, sem rekja má að Litlu-Hlíð í Vestur-Húnavatnssýslu og það alveg um aldarfjórðung aftur fyrir aldamóin 1900, eða nærri því eina og hálfa öld.

Litbrá var sýnd hinn 20 júlí 2020 af Þórhalli Rúnari Þorvaldssyni, eins og fyrr segir.
Litbrá fékk 8,17 í sköpulagseinkunn, 7,95 í hæfileikaeinkunn og 8,03 í aðaleinkunn, 7,97 í aðaleinkunn án skeiðs, ef það skiptir máli.
Hrossaræktarsamtök Suðurlands óska Litbrá og eiganda hennar til hamingju með árangurinn.

Related Articles